Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA) beinir þeim tilmælum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að fella niður ákvæði til bráðabirgða um undanþágu frá þjálfun í ökugerði.
Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar um banaslys sem varð á Þorláksmessu 2016 við Heiðarenda í Jökulsárdal. Suzuki Grand Vitara endaði utan vegar og valt. Ökumaður bifreiðarinnar, 61 árs gömul kona, var ein í bifreiðinni og lést af höfuðáverkum.
Færð á slysdegi var ekki með besta móti, snjókoma eða slydda og skyggni ábótavant. Óveðri hafði verið spáð síðar um daginn og hafði hin látna ætlað sér að komast á leiðarenda áður en færð spilltist.
„Ökumaður öðlaðist ökuréttindi rúmlega fimm mánuðum fyrir slysið. Hann hafði því ekki langa reynslu af akstri og alls ekki í svo erfiðri færð sem þarna var,“ segir í skýrslunni.
Í reglugerð um almenn ökuskírteini er kveðið á um að til að hljóta ökuréttindi þurfi að ljúka ökuskóla þrjú. Slíkt nám fer fram í ökugerði og kynnast nemar þar erfiðum akstursskilyrðum, hvernig aksturseiginleikar breytast þegar grip minnkar og hvernig skal forðast að bifreið fari að skríða til.
Reglurnar hafa verið í gildi frá 2011 en uppbygging ökugerða hefur tafist. Engin slík eru á Austur- og Vesturlandi sem og Vestfjörðum. Því hefur verið undanþáguákvæði í lögum að hægt sé að fá bráðabirgðaskírteini án þess að ljúka ökuskóla þrjú. RNSA leggur til að þessi bráðabirgðaheimild verði felld niður.
