Verkið fjallar sem sagt um leikkonu sem er skikkuð í meðferð, eftir hneykslanlegt atvik á sviðinu. Hún þarf að fá vottorð um að hún sé hæf til að mæta aftur í vinnu og hún situr af sér allt meðferðarferlið án þess að vera sannfærð um að hún sé fíkill. „Við fylgjum henni á þessu ferðalagi,“ lýsir Gísli Örn og segir aðstæður í leikritinu grátbroslegar. „Höfundurinn, breska leikskáldið og leikstjórinn Duncan Macmillan, hefur húmorinn að vopni, þannig náum við tengslum við persónurnar, þær eru svo mannlegar. Sem þjóð erum við alltof mörg að díla við fíkn og það er víst auðveldara að redda sér dópi en panta pitsu þannig að þetta er alvöru samfélagsmál – bara alvöru – en fjölskyldur eiga erfitt með að ræða það og svo standa allir berskjaldaðir.“

Leikendur hér eru Nína Dögg, Jóhann Sigurðarson, Björn Thors, Sigrún Edda, Edda Björg, Maríanna Clara og Hannes Óli. Sviðið er hvítt og eins og pilla eða pilluhylki í laginu og áhorfendur sitja sitt hvorum megin við það. „Það er eins svið úti í Noregi,“ segir Gísli Örn. „Sú sem leikur aðalhlutverkið þar heitir Íne, hér heitir hún Nína og þær voru aðeins utan í hvor annarri í ferlinu úti, Það var líka markmiðið að búa til samstarf milli landanna þannig að smit yrði á milli sem hefði áhrif á heildarútkomuna. Hrikalega gott og gefandi fyrirkomulag.“
Garðar Gíslason, faðir Gísla Arnar, þýddi verkið á íslensku. „Pabbi hefur skrifað margar kennslubækur, hann er kennari á meðferðarheimilinu í Krýsuvík, þannig að hann þekkir þennan heim og það tungutak sem þar tíðkast og það uppfærist mjög hratt. Það var því bónus að fá þýðingu frá einhverjum sem væri inni í því slangri akkúrat í dag, þannig verður talsmátinn hversdagslegur, áreynslulaus og flæðandi. Leikhópurinn kemur líka sterkur inn og við vinnum þetta öll saman. Við höfum verið með áhorfendur á forsýningum og það er hrikalega góð stemning, sýningin fer greinilega beint inn í hjartað á fólki.“