Á sjötta tímanum í morgun hafnaði bifreið utan vegar í Kópavogi með þeim afleiðingum að hún endaði á ljósastaur. Slysið varð á Kringlumýrarbraut, til móts við Lund skammt frá Hamraborg. Bíllinn er gjörónýtur en ökumaðurinn var einn í bílnum.
Eyþór Leifsson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að beita hafi þurft klippum til þess að ná ökumanninum út úr bílnum. Gat hann ekki gefið upplýsingar um líðan ökumannsins. Eyþór segir að slysið hafi líklega orðið vegna hálku. Á höfuðborgarsvæðinu er enn víða snjór og bleyta á vegum.
