Samstaða hefur náðst í ríkjahópi Vesturlanda hjá Sameinuðu þjóðunum um að Ísland gefi kost á sér til að taka sæti Bandaríkjanna í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Við úrsögn Bandaríkjanna úr ráðinu losnaði eitt sæti og gert er ráð fyrir að Ísland verði eitt í kjöri í aukakosningum til ráðsins sem haldnar verða í allsherjarþinginu í næsta mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.
47 ríki sitja í ráðinu og þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja. Fyrr í þessum mánuði sögðu Bandaríkin sig úr ráðinu og við það losnaði eitt af sætum Vesturlandahópsins. Fljótlega náðist samstaða um að Ísland gæfi kost á sér til að fylla sætið út tímabil Bandaríkjanna eða til ársloka 2019.
Forsætisráðherra segir að Ísland hafi getið sér gott orð fyrir framgöngu sína í mannréttindamálum.
„Ég er sannfærð um að nái Ísland kjöri eigum við eftir að standa fyllilega undir þeirri ábyrgð sem því fylgir að taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur getið sér gott orð fyrir framgöngu sína í mannréttindamálum, meðal annars höfum við beitt okkur fyrir jafnrétti kynjanna og réttindum hinsegin fólks svo eftir hefur verið tekið á alþjóðavísu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Ísland gefur kost á sér í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna
