Körfubolti

Martin genginn til liðs við Alba Berlin

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Martin Hermannsson í leik með íslenska landsliðinu
Martin Hermannsson í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Getty
Martin Hermannsson er genginn til liðs við þýska stórliðið Alba Berlin. Þýska félagið staðfesti komu Martins á Facebook síðu sinni nú rétt í þessu.

Alba Berlin hafnaði í 2.sæti þýsku Bundesligunnar á síðustu leiktíð en félagið hefur átta sinnum orðið þýskur meistari, síðast árið 2008. 

Alba keppir í Euro Cup sem er næst sterkasta Evrópukeppnin á eftir Euroleague og er afar sterk deild. Liðið komst í 16-liða úrslit þar á síðustu leiktíð.

Þjálfari Alba Berlin er spænski reynsluboltinn Aíto García Reneses sem stýrði Barcelona um sextán ára skeið frá 1985-2001 en hann stýrði meðal annars spænska landsliðinu um tíma.

Martin er uppalinn KR-ingur en hann kemur til Alba Berlin frá Chalon-Reims í frönsku úrvalsdeildinni en þar átti Martin frábært tímabil síðastliðinn vetur og var í algjöru lykilhlutverki hjá liðinu.

Hann hafði úr nokkrum liðum að velja og hafnaði til að mynda tyrkneska liðinu Darussafaka til að ganga í raðir Alba Berlin.

Martin er hluti af íslenska landsliðinu sem mætir því búlgarska í mikilvægum leik í undankeppni HM í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×