Fundi í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins í húsakynnum sáttasemjara er lokið án árangurs. Þetta segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður kjaranefndar ljósmæðra, í samtali við Vísi.
Enn er stál í stál í deilunni þar sem hvorug samninganefnd lagði fram nýtt tilboð og kjaranefnd ljósmæðra gat ekki fallist á möguleika á miðlunartillögu sáttasemjara né að senda deiluna í gerðardóm.
Katrín segir að rætt hafi verið um möguleikann á miðlunartillögu af hálfu sáttasemjara eða að senda deiluna í gerðardóm.
„Miðlunartillaga myndi myndi innihalda væri nákvæmlega það sama og var í samningnum sem felldur var í júní, ekkert aukreitis umfram það. Það er ekki eitthvað sem okkar félagskonur myndu samþykkja, þeim samningi hefur verið hafnað. Það þarf að koma inn leiðrétting á launasetningunni og við skrifum ekki undir neitt minna en það og hvað þá einhvern óútfylltan tékka,“ segir Katrín.
Spurð út í gerðardóm þá segir hún að kjaranefndin hefði ekki vilja setja samningsumboðið frá sér á meðan þær væru ekki með neina tryggingu fyrir því að það kæmi einhver leiðrétting á launasetningunni í gegnum dóminn.
„Ef það hefði komið inn auka upphæð til dæmis frá velferðarráðuneytinu til að leiðrétta þetta breytta inntak á störfum ljósmæðra og koma með leiðréttingu á launasetningu þá væri frábært að fá gerðadóm til að fara dýpra ofan í kjölinn á málinu en gerðardómur er bara óútfylltur tékki og þar með erum við búnar að setja frá okkur samningsumboð og úrskurður gerðardóms eru lokaorð.“
Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni.
Fréttin hefur verið uppfærð.

