Hljómsveitin fagnar útgáfu nýrrar breiðskífu, Gateways, með tónleikum í Iðnó á föstudaginn. Platan verður flutt í heild sinni með hjálp aukahljóðfæraleikara sem komu við sögu í upptökuferlinu, meðal annars Magga Kjartans.
„Ég hef aldrei farið úr rokkinu. Þetta er eins og að vera með ólæknandi sjúkdóm,“ segir píanóleikarinn geðþekki. „Ég kynntist þeim þegar ég fór með þeim á Eistnaflug árið 2015. Þar spiluðum við Lifun með þá fremsta í flokki. Ég fór svo að fylgjast með þeim spila sitt efni síðar á Eistnaflugi og ég varð alveg gáttaður á hæfileikunum,“ bætir hann við.

Magnús bætir við að nafnið á hljómsveitinni beri þeir með rentu. „Þeir eru allir forfallnir fortíðardýrkendur í músík, hlusta mikið á bönd eins og Led Zeppelin, Deep Purple og fleiri. Þeir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hlakka mjög til að fá plötuna.“