Ferðin var í boði bandaríska sendiráðsins á Íslandi en á meðal þeirra sem fóru í þessa ferð voru Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sem báðar eru í utanríkismálanefnd.
Bryndís sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að íslenskum stjórnmálamönnum hefði verið boðið um borð í flugmóðurskipið USS Harry Truman til að kynna sér starfsemi sem er um borð í skipinu. Sagði Bryndís að henni finnist gott að vita til þess að Bandaríkjamenn séu að kveikja á því hvað Ísland sé í raun mikilvægt þegar kemur að staðsetningu í Atlantshafinu.

Sagði Þorgerður jafnframt að bandaríski herinn muni fjölga varnaræfingum í grennd við Ísland og að herfloti NATO muni fjölga ferðum sínum í lögsögu Íslands. Því sé sjálfsagt og eðlilegt að kynna sér starfið sem fer fram innan bandaríska hersins og fá upplýsingar um það hvernig herinn sjái fyrir sér þróun á herstarfsemi hér við land.
Þorgerður sagðist hafa heyrt það á mönnum um borð í skipinu að þeir væru ekki sáttir við þá ákvörðun að draga herafla Bandaríkjanna frá Íslandi árið 2006 og að þeir séu að skipuleggja sig með aukin umsvif Rússa í Atlantshafinu í huga.
Var skipið statt um 150 mílur suður af landinu innan íslenskrar lögsögu.
Samningur Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins um Reykjavíkurflugvöll kveður á um að flugvöllurinn verði ekki notaður undir hernaðarstarfsemi nema í undantekningartilvikum, það er sem varaflugvöllur eða í tengslum við björgunaraðgerðir.
Dagur B. Eggertsson sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að borginni hefði ekki verið tilkynnt um flug þessara tveggja herflugvéla á Reykjavíkurflugvelli í dag en bætti við að það væri ekki endilega nauðsynlegt. Hins vegar myndi borgin afla upplýsinga um flugið í dag, í hvaða tilgangi það var og hvort það samræmist samningnum.
Ásamt Bryndís og Þorgerði fóru Smári McCarthy þingmaður Pírata, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður Samfylkingarinnar og Njáll Trausti Friðbertsson um borð í skipið ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra og starfsfólki varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna og Logi Már Einarsson formaður Samfylkingarinnar, sem bæði eiga sæti í utanríkismálanefnd, afþökkuðu bæði boð um að fara í flugmóðurskipið. Sagðist Logi Már hafa takmarkaðan áhuga á því og sagði Rósa Björk að það samræmdist ekki pólitískum skoðunum hennar.
Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins afþakkaði einnig boðið en hann segir í samtali við Vísi að hann hefði verið upptekinn við þingstörf, annars hefði hann þegið boðið.