Skordýrafána Íslands þykir frekar fábrotin sé miðað við önnur lönd og sem dæmi má nefna að það var einungis fyrir rétt rúmum fjörutíu árum sem fyrstu geitungabúin fundust hér landi.
Erling Ólafsson skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að nýir landnemar finnist nú árlega og þessi þróun hafi tekið stökk upp á við á síðustu áratugum.

Loftslagsbreytingar hafi líka sitt að segja en sem dæmi um nýja tegund má nefna garðaklaufhala sem hefur fundist víða um land.
„Þetta er tegund sem var að berast hingað með varningi, grænmeti og ávöxtum, alla síðustu öld. Svo gerist það núna fyrir aldamótin að hann hefur sest að og farið að lifa af og fjölga sér hér,“ segir Erling.