Í yfirlýsingunni segir að brýnt sé að verja þær framfarir sem orðið hafa á síðustu árum en jafnframt þurfi að halda áfram af fullum þunga í átt að algeru jafnrétti. „Skaðlegar staðalímyndir og fordómar sem tengjast aldri og kyni halda oft aftur af stelpum og setja þær í hættulegar aðstæður.“
Fram kemur í yfirlýsingunni að alþjóðasamfélagið hafi með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna skuldbundið sig til þess að skapa heim þar sem stelpum sé tryggð uppvaxtarskilyrði án mismununar og kynbundis ofbeldis – og þar sem hvorki kyn eða aldur tálmi leið þeirra að jöfnum tækifærum og valdeflingu á öllum sviðum. „Engu að síður eru þessar skuldbindingar enn ófullnægjandi og hætta er á afturför sem myndi leiða til þess að of margar stelpur verði útundan.“
Sérfræðingahópurinn vísar sérstaklega til fimm Heimsmarkmiða í þessu samhengi, markmiðsins um útrýmingu fátæktar (1), markmiðsins um mikilvægi menntunar (4), markmiðs um atvinnutækifæri og hagvöxt (8) og markmiðsins um frið og réttlæti (16).
![](https://www.visir.is/i/1ED16C0EA2811BD70EA02647C6A8AACC4E8F4C4B14D2DABB2D9A27A22F929DCD_390x0.jpg)
„Í of mörgum löndum er ríghaldið í lög sem mismuna stúlkum í málaflokkum eins og í erfðarétti og giftingaraldri. Í of mörgum fjölskyldum og samfélögum er viðhaldið skaðlegum hefðum eins og barnahjónaböndum, útilokun meðan á blæðingum stendur og limlestingum á kynfærum stelpna,“ segir í yfirlýsingunni.
Í lok hennar segir að stelpur standi oft frammi fyrir tvöfaldri mismunum, bæði vegna kyns og aldurs, sem leitist við að þagga niður í þeim og sýna þær veikburða og máttlitlar. „En stelpur um allan heim eru sterkar, hugrakkar, gáfaðar og hæfileikamiklar. Við verðum að hlusta á hvað þær hafa að segja, gefa þeim tækifæri til að ná árangri. Og við verðum að virða, vernda og uppfylla öll mannréttindi þeirra.“
![](https://www.visir.is/i/51A533B0802B770883B3E442388CA6B5D6FCBB51B8B4965865A1D434B6D6DE27_390x0.jpg)
Alþjóðadagur stúlkubarnsins var fyrst haldinn árið 2012.
Yfirlýsingin í heild.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim.Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.