Samkvæmt samkomulagi formanna flokkanna verður samgönguáætlun lögð fram á Alþingi strax eftir jólahlé og kláruð fyrir 1. febrúar. Starfandi formanni umhverfis- og samgöngunefndar líst vel á niðurstöðuna.
„Það má svo sem ekki seinna vera þannig að Vegagerðin og samgönguráðuneytið hafi skýrar línur frá þinginu. En þetta er alveg ásættanlegt,“ segir Jón og kveðst vonast til að breið sátt náist um málið.

Veggjöldin yrðu lögð á stofnbrautir í nágrenni Reykjavíkur en einnig á jarðgöng.
„Til að gæta jafnræðis meðal landsmanna, að það verði gjaldtaka líka út um land til að við tökum öll þátt í þessu stórverkefni sameiginlega.“
Rétt eins og var í Hvalfjarðargöngum yrði hærra gjald fyrir staka ferð, sem Jón býst við að einkum erlendir ferðamenn greiði, en þorri almennings myndi greiða lægsta gjald, á bilinu 100 til 150 krónur, sem Jón býst við að gæti endað í kringum 130-140 krónur. En það verða engin gjaldskýli.
„Gjaldtakan verður rafræn þannig að hún tefur ekki umferð.“

Með veggjöldunum er ætlunin að flýta framkvæmdum um land allt og þegar liggja fyrir meginlínur um hvaða verkefni verða valin, að sögn Jóns.
„Þarna eru undir þessar stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu með fullnaðarfrágangi á Reykjanesbraut, alveg í gegnum höfuðborgina, það er að segja í gegnum Hafnarfjörð og alveg inn að Holtavegi með mislægum gatnamótum á Bústaðaveg. Og síðan Suðurlandsvegur austur að vegamótum fyrir austan Selfoss. Og upp í Borgarnes.“
Framkvæmdum í dreifbýlinu verður einnig flýtt.
„Ekki síst á sveita- og tengivegum. Öxi, Dynjandisheiði, Skógarströndin, Vatnsnesvegur. Þetta eru svona vegarkaflar sem má nefna.
Ég segi allavega að á næstu fimm árum, með því að fara þessa leið, munum við sjá gjörbyltingu í samgöngumálum okkar hér á landi,“ segir Jón Gunnarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.