Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti einróma á fundi sínum í gær að lækka laun fyrir setu í bæjarstjórn um 15 prósent.
Það felur í sér lækkun um rúmlega 53 þúsund krónur á mánuði, launin fara úr 353 þúsund krónum í 300 þúsund. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ er þó tekið fram að þóknun fyrir setu í öðrum nefndum og ráðum haldist óbreytt.
Þessi launalækkun er sögð vera í samræmi við yfirlýsingar bæjarstjóra Kópavogs, Ármanns Kr. Ólafssonar, sem fór fram á það við upphaf kjörtímabilsins að laun hans og bæjarfulltrúa yrðu lækkuð.
Launalækkun Ármanns tók gildi þann 12. júní í fyrra og nam hún 15 prósentum, sömu hlutfallslegu lækkun og í tilfelli bæjarfulltrúanna sem fyrr segir. Mánaðarlaun Ármanns lækkuðu hins vegar um 347 þúsund krónur á mánuði, fóru úr tæpum 2,5 milljónum í rúmlega 2,1 milljón.
