Innlent

„Breiðu bökin í ferðaþjónustunni“ skotmörk verkfalla

Sylvía Hall skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. vísir/vilhelm
Aðgerðaráætlun VR var lögð fyrir stjórn og samninganefnd félagsins í dag. Áætlunin var samþykkt einróma og áætlað er að hún verði kynnt næstkomandi föstudag. Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Atkvæðagreiðsla meðal þeirra félagsmanna sem aðgerðirnar ná yfir munu hefjast í kjölfarið. Þá var einnig samþykkt að þeir félagsmenn sem fara í verkfall verði ekki fyrir tekjutapi á meðan verkfalli stendur heldur fá það að fullu bætt úr verkfallssjóðum félagsins.

Fyrirhugaðar aðgerðir beinast að „breiðu bökunu í ferðaþjónustunni“ að sögn Ragnars Þórs sem vildi ekki gefa upp nákvæmlega hvaða fyrirtækjum umræddar aðgerðir beinast að. VR muni funda með trúnaðarmönnum fyrirtækjanna á næstunni til þess að ræða nánara fyrirkomulag og á þriðjudaginn í næstu viku verði boðað til fundar með öllum félagsmönnum VR.

„Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af því að félagsmenn okkar, fólkið sem er að vinna þessi störf og eru svo sannarlega breiðu bökin í ferðaþjónustunni, þetta fólk er á launum sem duga ekki til framfærslu, duga ekki fyrir lífskjörum eða til að lifa með mannlegri reisn. Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af því, ekki fyrirtækjunum,“ sagði Ragnar Þór aðspurður um hvort hann hefði áhyggjur af áhrifum fyrirhugaðra aðgerða á efnahagslífið.

Í Speglinum í dag kom fram að fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir VR og Eflingar hljóði upp á sex staðbundin verkföll og að hvert verkfall stæði yfir í tvo til fjóra daga. Samtals yrðu verkfallsdagarnir um átján talsins. Gert er ráð fyrir því að fyrsta verkfallið geti hafist um 20. mars og gæti farið svo að þau stæðu fram yfir miðjan apríl náist samningar ekki. Eftir það tæki við ótímabundið verkfall.

Heimildir Spegilsins herma að umrædd fyrirtæki séu Grayline og Reykjavík Excursions en fyrirtækin sjá meðal annars um rútuferðir til og frá Keflavíkurflugvelli.

Hægt er að horfa á viðtalið við Ragnar Þór hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×