Jón Þröstur sást síðast í hverfinu Whitehall í norður Dyflinni en í fréttatilkynningunni kemur fram að írska björgunarsveitin hefði fínkembt svæðið og því sé afar ólíklegt að Jón sé í Whitehall.
Hefur fjölskyldan lagt af stað með „Hefur þú séð bróður minn?“-herferðina til að ná til sem flestra í von um að Jón finnist.
Eru Írar hvattir til að prenta út plakat þar sem vakin er athygli á því að Jóns sé saknað. Er fólk beðið um að hengja plakatið upp á vinnustöðum sínum, í bílum, sporvögnum, biðskýlum og á kappleikjum.

Jón Þröstur fór út af hóteli sínu klukkan ellefu að morgni laugardaginn 9. febrúar síðastliðinn. Hann sést í eftirlitsmyndavélum ganga frá Swords Road til Collins Avenue, en ekkert er vitað um ferðir hans frá þeim stað.
Taldar eru líkur á að hann hafi sest upp í ökutæki og ferðast eitthvert innan Írlands. Jón yfirgaf hótelið án vegabréfs eða annarra skilríkja og því talið ólíklegt að hann hafi yfirgefið landið en þó ekki útilokað að hann hafi náð að komast til Norður Írlands eða Bretlandseyja án skilríkja.
Fjölskylda Jóns hefur verið í Írlandi undanfarnar vikur og hefur ekki í hyggju að yfirgefa landið án hans.
„Við gefumst ekki upp. Við erum svo virkilega þakklát fyrir stuðninginn og alla þá hjálp sem við höfum fengið frá írsku þjóðinni og vonum að herferðin um allt land muni skila Jóni heim,“ segir Davíð Karl í tilkynningunni.
Jóni er þar lýst sem blíðum og ástríkum fjögurra barna föður og hvarfið sagt afar ólíkt honum.