Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í dag.
Tilkynnt var um líkamsárás við hótel í póstnúmeri 105 rétt fyrir klukkan 11 en þar hafði erlendur ferðamaður verið sleginn í höfuðið með flösku. Árásaraðili var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði og er málið í rannsókn.
Númer voru klippt af níu bifreiðum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið, rúða var brotin í bifreið í Fossvogi, afskipti voru höfð af pari vegna vörslu fíkniefna og brota á vopnalögum.
Í Kórahverfinu í Kópavogi var tilkynnt um innbrot í bílskúr, þar sem gluggi hafði verið spenntur upp og verðmætum stolið. Þá voru ærslabelgir á ferð á bílastæði í Kópavogi. Tilkynnt var um drengi á vespu sem bundið höfðu innkaupakerru aftan á ökutækið og drógu hvorn annan um bílastæðið.
