Enn er fundað í húsakynnum ríkissáttasemjara í kjaradeilu VR, Eflingar, LÍV, VLFG, VLFA og Framsýnar við Samtök atvinnulífsins.
Fundurinn hófst klukkan 10 í dag og átti upphaflega að standa í klukkutíma en samkvæmt vef sáttasemjara er nú áætlað að fundurinn standi til klukkan 17.
Fjölmiðlum var leyft að mynda við upphaf fundar í morgun en um 20 mínútum eftir að fundur hófst var fjölmiðlum vísað út úr húsinu þar sem breytt fyrirkomulag yrði á fundinum.
Að öllu óbreyttu skella verkföll rúmlega 2000 hótelstarfsmanna og rútubílstjóra sem eru félagsmenn í Eflingu og VR á á miðnætti í kvöld. Er áætlað að þau standi í sólarhring. Mjakist hins vegar eitthvað hjá sáttasemjara í dag gæti verkföllum verið frestað.

