Erlent

Trump áfrýjar úrskurði um aðgang þingsins að fjárhagsupplýsingum

Kjartan Kjartansson skrifar
Demókratar vilja aðgang að fjárhagsupplýsingum um Trump til að varpa ljósi á hvort hann eigi í hagsmunaárekstrum vegna viðskiptaumsvifa hans.
Demókratar vilja aðgang að fjárhagsupplýsingum um Trump til að varpa ljósi á hvort hann eigi í hagsmunaárekstrum vegna viðskiptaumsvifa hans. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti, þrjú börn hans og fyrirtæki hafa kært úrskurð alríkisdómara um að Deutsche Bank og Capital One sé skylt að afhenda Bandaríkjaþingi fjárhagsupplýsingar um þau sem þingnefnd hefur krafist.

Alríkisdómari hafnaði á miðvikudag kröfu Trump-fjölskyldunnar og fyrirtækisins um að fjármálastofnununum yrði bannað að verða við stefnum sem tvær þingnefndir sem demókratar fara með meirihluta í gáfu út í apríl.

Reuters-fréttastofan segir að Trump hafi nú kært úrskurðinn. Hann hefur barist með ráðum og dáð gegn því að Bandaríkjaþing fái aðgang að upplýsingum um fjármál hans. Forsetinn hefur einnig staðfastlega neitað að gera skattskýrslur sínar opinber, þvert á áratugalanga hefð.

Deutsche Bank er stærsti lánveitandi Trump og er hann talinn skulda bankanum að minnsta kosti 130 milljónir dollara. Bankinn hefur verið eina stóra fjármálastofnunin sem hefur verið tilbúin að fjármagna umsvif Trump undanfarna áratugi eftir röð gjaldþrota og misheppnaðra verkefna.

Stefnan sem send var Capital One tengist gögnum um fjölda lögaðila sem tengjast hótelrekstri Trump-fyrirtækisins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×