Microsoft tilkynnti í gær um að Xbox Game Pass, áskriftarþjónusta fyrirtækisins fyrir tölvuleiki, sé væntanlegt á Windows-tölvur. Þjónustan hefur hingað til eingöngu verið aðgengileg á Xbox One leikjatölvum.
Með áskrift að þjónustunni mun Windows-notendum standa til boða að hlaða niður og spila meira en hundrað leiki frá framleiðendum á borð við Bethesda, Devolver Digital og SEGA. Þá verða leikir frá framleiðendum í eigu Microsoft hluti af þjónustunni um leið og þeir koma á markað, líkt og hefur verið á Xbox.
Ekki liggur fyrir hvort það þurfi að greiða sitt hvort áskriftargjaldið fyrir Xbox- og Windowsútgáfu þjónustunnar. Þá sagði Microsoft ekkert í tilkynningu sinni um verð, hvenær þjónustan kemur á markað. Engin dæmi voru gefin um leiki.
Tilkynningin ætti ekki að koma á óvart. Satya Nadella forstjóri sagði í síðasta mánuði að það væri lykilatriði fyrir vöxt Xbox að yfirfæra þjónustuna líka á Windows-tölvur.
Game Pass kemur á Windows
