Gunnar Örvar Stefánsson skoraði öll þrjú mörk Magna í 3-2 sigri á Njarðvík á Grenivík í Inkasso-deild karla í kvöld.
Þetta var fyrsti sigur Magnamanna á tímabilinu. Með honum komust þeir upp fyrir Hauka og í 11. sæti deildarinnar. Njarðvíkingar, sem hafa tapað þremur leikjum í röð, eru í 9. sætinu með sjö stig.
Njarðvík komst yfir á 37. mínútu þegar Andri Fannar Freysson skoraði úr vítaspyrnu. Gunnar Örvar jafnaði úr annarri vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks.
Hann skoraði svo sitt annað mark á 50. mínútu og kom Magna yfir. Gunnar Örvar var ekki hættur og skoraði sitt þriðja mark á 69. mínútu.
Andri Gíslason minnkaði muninn stundarfjórðungi fyrir leikslok en nær komust Njarðvíkingar ekki. Lokatölur 3-2, Magnamönnum í vil.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Gunnar Örvar með þrennu í fyrsta sigri Magna
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
