Grótta tyllti sér á topp Inkasso-deildar karla með 0-3 sigri á Aftureldingu í nýliðaslag í Mosfellsbænum í kvöld. Grótta hefur fengið 13 stig af 15 mögulegum í síðustu fimm leikjum.
Staðan var markalaus fram á 87. mínútu þegar Axel Freyr Harðarson kom Seltirningum yfir.
Loic Ondo, fyrirliði Aftureldingar, skallaði í stöng á lokamínútunni en Pétur Theodór Árnason refsaði skömmu síðar. Hann bætti svo öðru marki sínu við í uppbótartíma. Pétur er markahæstur í Inkasso-deildinni með sjö mörk líkt og Þórsarinn Álvaro Montejo.
Afturelding er í 10. sæti deildarinnar með níu stig, tveimur stigum frá fallsæti.
Leiknir R. vann 1-3 sigur á Keflavík suður með sjó í fyrsta leiknum undir stjórn nýja þjálfarans, Sigurðar Heiðars Höskuldssonar. Hann tók við Leikni af Stefáni Gíslasyni sem er farinn til Lommel í Belgíu.
Staðan var markalaus í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks skoraði Vuk Oskar Dimitrijevic fyrsta mark leiksins og kom Leiknismönnum yfir. Á 53. mínútu kom Sævar Atli Magnússon gestunum úr Breiðholti í 0-2 þegar hann nýtti sér slæm mistök Ísaks Óla Ólafssonar, fyrirliða Keflavíkur, og skoraði.
Adolf Mtasingwa Bitegeko minnkaði muninn á 61. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar kom Sólon Breki Leifsson Leikni í 1-3 sem urðu lokatölur leiksins.
Leiknir er í 5. sæti deildarinnar, einu sæti ofar en Keflavík.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Grótta á toppinn | Draumabyrjun nýja þjálfarans hjá Leikni

Tengdar fréttir

Stefán Gíslason hættur með Leikni og tekur við liði í Belgíu
Óvænt tíðindi úr Breiðholtinu.

Stefán Gíslason verður knattspyrnustjóri Hendrickx hjá Lommel SK
Belgíska félagið Lommel SK sótti sér bæði leikmann og knattspyrnustjóra til Íslands í þessum mánuði.