Ekki hafa fyrr birst myndir af mjöldrunum tveimur eftir að þeir lögðu í þessa langferð til Íslands alla leið frá Sjahghæ. Og næstu tvo mánuði verða þeir svo hafðir í sóttkví og því verða ekki nema þeir sem annast þessi frægu sjávarspendýr sem fá þau augum barið. En eins og fréttastofa hefur greint frá virðist hafa vel til tekist með að ferja þá til Eyja; þeir eru nú farnir að hreyfa sig og éta sem er góðs viti.

Eftir því sem Vísir kemst næst ríkir almennt mikil ánægja í Eyjum með komu þessara nýju íbúa. Eyjaskeggjar hafa af því reynslu að taka á móti dýrum sem þessum en frægt er þegar háhyrningurinn Keikó dvaldi í Eyjum um hríð. Áður en hann svo flúði til Noregs hvar hann drapst. Þetta telja Eyjamenn hins vegar allt annað og betra dæmi.