Innlent

Hátt í áttatíu vændiskonur í Reykjavík eru með virka auglýsingu á vændissölusíðu í dag

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Hátt í áttatíu vændiskonur í Reykjavík eru með virka auglýsingu á vændissölusíðu í dag. Þær voru um þrjátíu um áramótin. Konurnar segjast velja Reykjavík þar sem hærra verð fáist fyrir vændi hér en víða í Evrópu og þær upplifi sig öruggari.

Frá áramótum hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgst grannt með vefsíðu þar sem vændi er auglýst. Eins og fréttastofa fjallaði nýlega um hefur lögreglan yfirheyrt um fimmtíu meinta vændiskaupendur á árinu og leikur grunur á að um mansal sé að ræða í einhverjum málanna.

Orðið hefur markverð aukning í sölu vændis hér á landi á síðustu mánuðum. Erla Dögg Gunnarsdóttir, lögreglufulltrúi hjá mansalsteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að um áramótin hafi þrjátíu einstaklingar, 98 prósent konur, verið með virka vændisauglýsingu vefsíðunni.

Eins og staðan er í dag eru hátt í 80 vændiskonur og einn karl, með virka auglýsingu á síðunni, það er hafa uppfært auglýsinguna á síðastliðnum mánuði.

Vændiskonurnar í málunum sem lögreglan hefur rannsakað eru flestar frá Austur-Evrópu og hefur lögreglan rætt við tugi þeirra frá áramótum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru helst tvær ástæður sem konurnar nefna fyrir því að þær velji að stunda vændi á Íslandi. Annars vegar hagnaður, en verð á vændi virðist dýrara hér en víða annars staðar. Og hinsvegar öryggi, en þær segjast upplifa sig öruggari hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×