Enski boltinn

Man. United borgar 33 milljónir á viku fyrir að losna við Alexis Sánchez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. Getty/by Chris Brunskill
Alexis Sánchez er laus úr frystikistunni á Old Trafford og mun spila með Internazionale á Ítalíu á þessu tímabili eftir að Internazionale og Manchester United náðu samkomulagi í gær.

Hinn 30 ára gamli Alexis Sánchez fer í læknisskoðun í Mílanó í dag og eftir það er ekkert því til fyrirstöðu að hann klæðist búningi ítalska félagsins.

Guardian hefur heimildir fyrir því hvernig gríðarlega háar launagreiðslur Alexis Sánchez skiptast á milli Internazionale og Manchester United.





Internazionale er þar sagt borga 175 þúsund pund af vikulaunum Sílemannsins en það er samt bara 45 prósent af launum hans.

Alexis Sánchez er með 390 þúsund pund í laun á viku samkvæmt frétt Guardian og Man. United borgar því 215 þúsund pund eða 33 milljónir króna á viku fyrir að losna við Alexis Sánchez á þessari leiktíð.

Hjá Internazionale hittir Alexis Sánchez annan leikmann sem var óánægður hjá Manchester United en fyrr í haust keypti Internazionale Romelu Lukaku frá United.

Með þessum lánssamningi þynnist aðeins framherjahópur Ole Gunnar Solskjær en Norðmaðurinn ætlaði hvort sem er ekki að nota Sílemanninn í vetur. Framherjar United liðsins eru nú þeir Marcus Rashford, Anthony Martial og Mason Greenwood. Martial er að glíma við tognun í læri og gæti misst af næsta leik sem er á móti Southampton á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×