Enski boltinn

Mustafi og Elneny á förum frá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mustafi og Elneny komu báðir til Arsenal 2016.
Mustafi og Elneny komu báðir til Arsenal 2016. vísir/getty
Shkodran Mustafi og Mohamed Elneny yfirgefa Arsenal áður en félagaskiptaglugganum í Evrópu verður lokað á mánudaginn.

Mustafi og Elneny komu ekkert við sögu í fyrstu tveimur leikjum Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Mustafi hefur verið orðaður við Roma á Ítalíu á meðan Elneny gæti farið til Tyrklandsmeistara Galatasary.

„Þeir voru ekki ánægðir þegar þeir spiluðu ekki á síðasta tímabili. Ég hef margoft rætt við þá og ég held að það sé gott fyrir þá að fara annað þar sem þeir verða ánægðir í stærra hlutverki,“ sagði Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal.

„Þeir vita hver staðan er. Ég óska þeim alls hins besta og held að það sé best fyrir þá að finna sér nýtt lið og takast á við nýja áskorun.“

Mustafi kom til Arsenal frá Valencia sumarið 2016. Elneny kom frá Basel í janúar sama ár. Þeir urðu bikarmeistarar með Arsenal fyrir tveimur árum.

Arsenal er með fullt hús stiga í ensku úrvalsdeildinni. Liðið sækir Liverpool heim í næsta leik sínum á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×