Enski boltinn

Leeds aftur á toppinn | Fulham burstaði Jón Daða og félaga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eddie Nketiah var aðeins fjórar mínútur að skora í fyrsta deildarleiknum með Leeds.
Eddie Nketiah var aðeins fjórar mínútur að skora í fyrsta deildarleiknum með Leeds. vísir/getty
Leeds United komst aftur á topp ensku B-deildarinnar með 1-0 sigri á Brentford í kvöld. Patrik Sigurður Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Brenford.

Eddie Nketiah, lánsmaður frá Arsenal, skoraði eina mark leiksins á 81. mínútu, fjórum mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður í sínum fyrsta deildarleik fyrir Leeds.

Leeds er með tíu stig, líkt og Swansea City sem vann 1-3 útisigur á QPR.

Jón Daði Böðvarsson sat allan tímann á varamannabekk Millwall sem steinlá fyrir Fulham, 4-0, á Craven Cottage. Ivan Cavaliero skoraði tvö mörk fyrir Fulham og Anthony Knockaert og Aleksandar Mitrovic sitt markið hvor.

Fulham, sem hefur unnið þrjá leiki í röð, er í 3. sæti deildarinnar með níu stig.

Bið Huddersfield Town eftir sigri lengist enn því í kvöld tapaði liðið fyrir Cardiff City, 2-1. Þetta var fyrsti leikur Huddersfield eftir að Jan Siewert var rekinn úr starfi knattspyrnustjóra liðsins.

Huddersfield hefur ekki unnið leik síðan 26. febrúar. Liðið er í 23. og næstneðsta sæti deildarinnar. Stoke City, sem tapaði 3-1 fyrir Preston, er í neðsta sætinu.

West Brom er enn ósigrað eftir að Kenneth Zohore jafnaði í 1-1 á síðustu stundu gegn Reading. Charlton Athletic og Nottingham Forest gerðu einnig 1-1 jafntefli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×