Enski boltinn

„Fernan á Anfield? Ég hef spilað betri leiki“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arshavin lék með Arsenal á árunum 2009 til 2013.
Arshavin lék með Arsenal á árunum 2009 til 2013. vísir/getty
Andrey Arshavin, fyrrum leikmaður Arsenal, segist ekki hafa búist við því að skora fjögur mörk á Anfield fyrir tíu árum síðan en segir að hann hafi spilað betri leiki á ferlinum.

Arsenal gerði 4-4 jafntefli við Liverpool í frábærum leik á Anfield í apríl árið 2009 en en Arshavin verður alltaf minnst hjá Arsenal fyrir þennan leik. Hann skoraði öll fjögur mörk Arsenal í leiknum.

Þremur mánuðum fyrir leikinn fræga árið 2009 gekk Rússinn í raðir Arsenal frá Zenit frá Pétursborg. Hann sagði að leikurinn á Anfied hafi bara verið eins og hver annar leikur.

„Fyrir mér var þetta bara venjulegur leikur og ekkert sérstakur. Mér leið ekkert öðruvísi fyrir þennan leik en einhvern annan,“ sagði Arshavin í samtali við Sky Sports sem upphitun fyrir helgina.

Liverpool og Arsenal mætast nefnilega í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar um helgina. Bæði lið eru með sex stig eftir fyrstu tvo leikina.

„Þegar ég kom út að hita upp hugsaði ég að við myndum ekki tapa þessum leik. Það var það eina sem ég vissi. Auðvitað gat ég ekki ímyndað mér að ég væri að fara skora fjögur mörk.“

„Ef þú lítur á tölfræðina þá var þetta minn besti leikmaður en ef þú horfir á spilamennskuna þá hef ég spilað marga leiki mun betur,“ sagði Rússinn.

Rússinn hefur nú lagt skóna á hilluna en það gerði hann á síðasta ári. Hinn 38 ára gamli Arshavin lék rúmlega 100 leiki með Arsenal áður en hann snéri aftur til heimalandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×