Handbolti

Erfitt verkefni fram undan hjá Íslandsmeisturunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Selfoss á erfitt verkefni fram undan í seinni leik liðsins gegn Malmö í EHF bikarnum í handbolta.

Selfyssingar töpuðu illa á útivelli, 33-27, og þurfa því að vinna seinni leikinn með að minnsta kosti sex mörkum til þess að eiga möguleika á að komast áfram í keppninni.

„Við töpuðum með sex mörkum, það segir kannski ekki alveg hvernig leikurinn spilaðist,“ sagði Hergeir Grímsson, einn leikmanna Íslandsmeistaranna, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þetta var jafn leikur í 45 mínútur, bæði lið að skapa sér færi en undir lok leiksins fórum við að klikka mikið á góðum færum, dauðafærum, og það fór svolítið með leikinn.“

„Þeir eru stórir, hávaxnir og þungir. Íslenski boltinn er kannski aðeins minni og sneggri. Ég hef séð fleiri lið á Íslandi sem geta tekið þá og við getum alveg 100 prósent tekið þá,“ sagði Hergeir.

Leikur Selfoss og Malmö fer fram klukkan 18:00 á morgun, laugardag, í Hleðsluhöllinni á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×