„Hann stækkar í þessum töluðu orðum. Móður og syni heilsast vel, svo spennandi,“ skrifar Dorrit við myndina af fæðingarskýrteini hins nýja Sáms. Fæðingarskírteinið er merkt ViaGen Pets, sem tekur að sér að klóna gæludýr.
Það vakti hörð viðbrögð í október á síðasta ári þegar Ólafur sagði að sýni hefðu verið tekin úr Sámi og send til fyrirtækis í Texas, ViaGen Pets. Fyrirtækið gæti þá klónað hann hvenær sem er.
Sámur varð svo allur í janúar á þessu ári. Í mars var tilkynnt að klónunarferlið væri hafið en þá skrifaði Dorrit á Instagram að ef allt gengi vel, myndi nýr Sámur líta dagsins ljós þann 13. Maí. Einhver töf virðist hafa orðið því hvolpurinn, hinn nýi Sámur, kom í heiminn þann 25. október samkvæmt myndinni á Instagram síðu Dorritar.

Samkvæmt verðskrá kostar 50 þúsund Bandaríkjadali, eða 6 milljónir króna, að klóna hund hjá Viagen Pets í Texas. Sámur er fyrsti íslenski klónaði hundurinn.