Pólska ofurfyrirsætan Julia Kuczynska, sem jafnframt heldur úti tískuvefsíðunni Maffashion, er harðlega gagnrýnd í pólskum lífsstílsmiðlum, svo sem Pudelek og Plotek, fyrir að traðka á íslenskum mosa. Julia var hér á landi til að taka upp auglýsingu fyrir fataframleiðanda.
Á myndunum sést hún ásamt tökuliði sínu greinilega fara inn á mosagróin svæði sem afmörkuð eru með bandi. En samkvæmt 17. grein laga um náttúruvernd segir að forðast skuli að „eyða eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi“.
Í pólskum miðlum er Julia sögð hafa brotið íslensk lög og sé það sérstaklega ámælisvert í ljósi þess að fólk í tískugeiranum er í auknum mæli að taka upp umhverfisvænan lífsstíl, beita sér fyrir náttúruvernd og vekja athygli á loftslagsvánni.
Ekki liggur fyrir hvar nákvæmlega Julia og tökulið hennar fóru inn á mosalendurnar, en hún birti myndir á samfélagsmiðlasíðu sinni. Mosi er hægvaxta planta og það getur tekið hann áratugi að jafna sig. Mál þar sem mosalendur hafa verið eyðilagðar vegna utanvegaaksturs hafa komið inn á borð lögreglu og menn hlotið sektargreiðslur fyrir.
Pólsk fyrirsæta traðkar á íslenskum mosabreiðum
Kristinn Haukur Guðnason skrifar
