Í kaflanum um Ísland er meðal annars viðtal við Kristinn Óla Haraldsson, öðru nafni Króla, nítján ára hip-hop tónlistaramann sem var einn tólf íslenskra karla sem tóku þátt í áhrifamiklu verkefni UN Women á Íslandi á síðasta ári þar sem þeir óundirbúnir lásu sanna frásögn af kynbundnu ofbeldi – en vissu ekki að konan sem rétti þeim handritið var konan sem brotið var á (sjá myndband).
„Jafnrétti og réttindi kvenna eru grundvallaratriði þegar horft er til framþróunar í heiminum. Undanfarna áratugi höfum við séð ótrúlegar framfarir varðandi réttindi og forystu kvenna á ýmsum sviðum en þessi ávinningur er fjarri því að vera stöðugur og raunar fjölgar þeim tilvikum, að þeir sem telja forréttindum sínum ógnað, bregðist við með neikvæðum hætti,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í formála ársskýrslunnar.
Hann segir ástæðuna vera þá að kynjajafnrétti sé í grunninn spurning um völd. „Þegar við gerum okkur fulla grein fyrir því að við búum í heimi þar sem karlar ráða ferðinni í karllægri menningu og sjáum kvenréttindi sem leið til breytinga öllum til heilla, þá fyrst munum við sjá hraðari framþróun,“ segir Guterres.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.