Jens segir að hann sé frekar nýlega farinn að gera jólakort, en hann hefur verið með jóla- dagatal á Facebook-síðu sinni Jens Arne Art þar sem hann teiknar vatnslitamyndir fyrir hvern dag fram að jólum. „Ég hef gert afmæliskort fyrir dóttur mína þegar hún fer í afmæli hjá vinum og vinkomum. Út frá því byrjaði ég að gera jólakortin," segir Jens.
Jens útskrifaðist af teiknibraut Myndlistaskólans í Reykjavík og lauk bachelor-gráðu í stafrænni list frá University of Cumbria í Bretlandi. Hann hefur haldið nokkur myndlistarnámskeið og kennir nú á vatnslitanámskeiði fyrir fullorðna í Klifinu í Garðabæ.

Jens segist nota A5 pappír í kortin en pappírinn er hugsaður fyrir ýmis efni eins og vatnsliti, blek og kol. „Ég handskrifa kveðjuna á kortin og er með klippur til að rúna hornin þannig að þau séu ekki alveg bein,“ útskýrir hann.
„Kortin eru vatnslituð og ég nota mjög fínan 0,1 mm penna til að teikna útlínur. Ég nota oftast ljósaborð þegar ég bý til kortin, þá skissa ég fyrst á venjulegan pappír og lýsi svo í gegnum hann. Ég geri þetta svo það séu engar skissulínur ofan á vatnslitunum.“
Þar sem mikill tími fer í hvert jólakort segir Jens að aðeins fáir útvaldir fái send heimagerð jólakort frá honum. Fjögurra ára dóttir hans er mjög áhugasöm um jólakortagerðina og kemur oft með hugmyndir að því hvernig kortin eigi að vera. „Við höfum oft málað kortin saman og stundum teikna ég og hún málar inn í. Henni finnst þetta mjög gaman.“

Jens segist mjög spenntur fyrir jólunum en hann byrjaði að telja niður dagana þegar 70 dagar voru til jóla. „Ég er með töflu í vinnunni þar sem ég tel niður. Ég set nýja tölu á töfluna daglega og teikningu undir. Ég byrja samt ekkert að skreyta mjög snemma. En mér finnst mjög gaman að vera með niðurteljara fram að jólum.“