Innlent

Jóhann Eyfells er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jóhann Eyfells lést í Texas í gær.
Jóhann Eyfells lést í Texas í gær. Skjáskot úr An Afternoon with Jóhann Eyfells
Myndhöggvarinn Jóhann Eyfells er látinn, 96 ára að aldri. Hann lést á hjúkrunarheimili í Fredericksburg í Texas í Bandaríkjunum í gær, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Á vef Listasafns Reykjavíkur kemur fram að Jóhann hafi fyrst lagt stund á arkitektúr og útskrifast af því sviði árið 1953. Ellefu árum síðar hafi hann útskrifast með meistaragráðu í myndlist.

„Árið 1969 var hann ráðinn sem prófessor í skúlptúr við University of Central Florida. Hann hefur æ síðan verið búsettur í Bandaríkjunum, lengst af í Florída.

Jóhann hefur notið umtalsverðrar virðingar fyrir verk sín og vinnubrögð. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1993 ásamt Hreini Friðfinnssyni. Hann byrjaði snemma á sjötta áratugnum að skapa abstrakt skúlptúra sem byggðust á tilraunum í eðlis- og efnafræði og sérstaklega umbreytingu málma við steypu. Tilraunir leiddu Jóhann að stíl sem hann kallar „receptúalisma“ en þar renna að hans sögn þrjú kerfi í eitt: Vísindi, heimspeki og dulhyggja.“

Íslandsvarðan sem stendur við Sæbraut í Reykjavík.Listasafn Reykjavíkur
Jóhann kynntist eiginkonu sinni, Kristínu Halldórsdóttur myndlistarmanni, á Kaliforníuárunum, en Kristín lést árið 2002. Á sjöunda áratugnum voru hjónin mjög áberandi í íslensku listalífi.

Meðal listaverka Jóhanns er bronsverkið Íslandsvarðan sem stendur við Sæbraut í Reykjavík.

Sonur Jóhanns og Auðar Halldórsdóttur er Ingólfur Eyfells, fæddur 1945, verkfræðingur í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×