Innlent

Fengu leyfi fyrir inn­flutningi tarantúlna

Atli Ísleifsson skrifar
Tarantúlur verða til sýnis í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum innan skamms.
Tarantúlur verða til sýnis í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum innan skamms. Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur veitt Fjölskyldu- og húsdýragarðinum heimild til innflutnings á fjórum risaköngulóm, eða tarantúlum, frá Þýskalandi. Verða tarantúlurnar til sýnis í garðinum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að um framandi lífverur sé að ræða og sé innflutningurinn því háður leyfi stofnunarinnar.

„Auk sýningar og fræðslu, verða köngulærnar mögulega notaðar við meðferð á ofsahræðslu á köngulóm (arachnophobia). Í umfjöllun sérfræðinganefndar kemur fram að útilokað sé að risaköngulær geti lifað af við náttúrulegar aðstæður á Íslandi, heldur geti þær einungis þrifist innan dyra og þá með umönnun, því þær þurfa hátt hitastig og raka auk vatns og fæðu.

Tegundin myndi því ekki lifa af við íslenskar aðstæður ef svo færi að hún slyppi úr búri eða garðinum,“ segir í tilkynningunni.

Fésugla (Ptilopsis granti).Wikipedia/CC

Heimild fyrir innflutning á fésuglum

Ennfremur segir að Umhverfisstofnun hafi einnig veitt Sigrúnu Kærnested Óladóttur leyfi fyrir innflutning á fjórum fésuglum (Ptilopsis granti) frá Bretlandi. Verða þær til sýnis í sérútbúnu húsi með áföstu búri.

„Í umfjöllun sérfræðinganefndarinnar kemur fram að ólíklegt sé að fésuglur geti þrifist villtar hér á landi vegna óhagstæðs verðurfars og fábreytts fæðuframboðs. Sérfræðinganefnd um framandi lífverur er sammála því mati að áhættan af innflutningi fésuglna fyrir innlendar uglutegundir sé hverfandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×