Fótbolti

Carlos segir að Hodgson hafi eyðilagt sig: „Hann vissi ekki mikið um fótbolta“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Roberto Carlos mun seint segja að Roy Hodgson sé besti stjóri heims.
Roberto Carlos mun seint segja að Roy Hodgson sé besti stjóri heims. vísir/epa

Einn besti vinstri bakvörður sögunnar, Roberto Carlos, ber Roy Hodgson ekki söguna vel því í viðtali við Marca segir Brassinn að Englendingurinn hafi lítið vitað um fótbolta.

Carlos var á mála hjá Inter á árunum 1995 til 1996 áður en hann hélt til Real Madrid þar sem hann vann þrettán bikara. Hann segist hafa farið frá Inter því hann vildi spila með Brasilíu.

„Roy Hodgson eyðilagði mig. Hann lét mig spila á miðjunni. Ég var ekki að fara fá tækifæri hjá Brasilíu þar og það var Suður-Ameríkukeppnin 1997,“ sagði Brassinn í samtali við Marca.

„Það er ekki það að okkur kom illa saman heldur vissi hann ekki mikið um fótbolta. Ég talaði við formanninn og bað um að fara. Ég fór til Madrídar og spilaði fyrir Capello sem var einn mikilvægasti stjórinn á mínum ferli.“

Hodgson stýrði Inter frá 1995 til 1997 en liðið tapaði meðal annars gegn Schalke í úrslitaleik UEFA-bikarsins árið 1997. Hann er sem kunnugt er þjálfari Crystal Palace í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×