Innlent

Efling og Reykjavík fresta fundi

Samúel Karl Ólason og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Frá fyrri fundi Reykjavíkurborgar og Eflingar hjá Ríkissáttasemjara.
Frá fyrri fundi Reykjavíkurborgar og Eflingar hjá Ríkissáttasemjara. Vísir/Vilhelm

Saminganefndir Reykjavíkurborgar og Eflingar hafa ákveðið að fresta formlegum samningafundi sem hófst klukkan tvö í gær. Ástráður Haraldsson, sáttasemjari hjá Ríkissáttasemjara, staðfesti þetta fyrir skömmu þegar hann yfirgaf Karphúsið skömmu fyrir þrjú í nótt.

Nýr fundur hefst klukkan tvö í dag.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, vildi ekki tjá sig við fjölmiðla þegar hún yfirgaf Karphúsið í nótt. Hún sagði eingöngu að fundir dagsins hafi verið áhugaverðir.

Hátt í tvö þúsund félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hafa nú verið í ótímabundnu verkfalli frá og með 17. febrúar. Skóla- og leikskólastarf hefur raskast töluvert í Reykjavík á meðan á verkfallinu hefur staðið.

Í dag hefst verkfall Eflingar í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík. Verkfallið hefði mikil áhrif á starf víða í grunnskólum og þá sérstaklega í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×