Innlent

„Við mættumst á miðri leið“

Atli Ísleifsson skrifar
Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, var fegin eftir að samningar voru í höfn.
Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, var fegin eftir að samningar voru í höfn.

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, segir að deiluaðilar í kjaradeilu félagsmanna Eflingar og borgarinnar hafi mæst á miðri leið. Samningurinn sem undirritaður var í nótt hafi byggt á grunni Lífskjarasamningsins.

„Þetta er búið að taka langan tíma. Það er mjög ánægjulegt að það sé komin niðurstaða og búið að aflýsa verkföllum,“ sagði Harpa við fréttamann í Karphúsinu í nótt þegar búið var að skrifa undir samninginn.

Hvað felur þessi samningur í sér fyrir borgina?

„Hann er byggður á grunni Lífskjarasamningsins, en hann felur líka í sér sérstaka hækkun fyrir lægst launaða hópinn og það er ánægjulegt að við höfum náð þessu skrefi.“

Þurftuð þið að gefa mikið eftir?

„Við mættumst á miðri leið en þetta er byggt á grunni Lífskjarasamningsins.“

Hvað þýðir þessi hækkun fyrir lægst launuðu hópana? Hvað er þetta há hækkun?

„Ég er ekki með hlutfallshækkun, en við erum að tala um 90 þúsund krónur á grunninn eins og lagt var upp með. Og svo er ýmislegt annað sem er að koma inn í. Ég er búin að nefna styttinguna sem dæmi þannig að það er mjög mikils virði.“

Tvær langar nætur í röð. Orðin þreytt?

„Mjög þreytt. Nú ætla ég heim að sofa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×