Alls voru 440 verk innsend til FÍT-verðlaunanna 2020. Innsend verk í keppnina hafa aldrei verið fleiri en úrslitin verða kynnt hér á Vísi næstu daga. Í flokknum Skjáir voru veitt gull- og silfurverðlaun í nokkrum undirflokkum. Þeir eru vefsvæði, gagnvirk miðlun, hreyfigrafík og að lokum opinn stafrænn flokkur. Lista yfir alla verðlaunahafa má finna hér neðar í fréttinni.
FÍT verðlaunahátíðin átti að fara fram í mars en vegna ástandsins í samfélaginu var ákveðið að tilkynna verðlaunahafana hér á Vísi og halda formlega afhendingu síðar. Næstu daga verða tilkynnt verðlaun í öllum 21 flokkunum og verður þessu skipt upp í fjórar tilkynningar. Á föstudaginn klukkan 09:00 verður svo tilkynnt hvaða gullverðlaunahafi hlýtur hin eftirsóttu aðalverðlaun FÍT. Verðlaunað verður það verk sem þykir eftirminnilegt og áhrifamikið í sínum flokki og góður fulltrúi fyrir sköpunargáfu Íslendinga í samkeppnum á alþjóðavísu.
Vefsvæði

Gullverðlaun
Ólafur Arnalds
Brjálæðislega flott notkun á letri sem hæfir vel viðfangsefninu. Samræming milli síðna er góð og smáatriðin eru óaðfinnanleg.
Hönnun: Arnar Ólafsson. Ueno.

Silfurverðlaun
Útmeða: Tían — Geðhjálp, Rauði kross íslands
Frumleg og góð uppsetning sem hæfir viðfangsefninu. Virkilega skemmtileg gagnvirkni.
Hönnun: Arnar Ólafsson. Ueno og Tjarnargatan.

Silfurverðlaun
Mæna 10 — Listaháskóli Íslands
Frumlegt og óvænt, óhrætt við að brjóta reglur, góð leturnotkun og skemmtileg uppsetning. Ferskur „wow faktor“.
Hönnun: Atli Sigursveinsson, Björn Snær Löve, Kolbeinn Jara Hamíðsson, Margrét Aðalheiður Önnu Þorgeirsdóttir, Atli Elfar Helgason, Ívar Björnsson
Gagnvirk miðlun

Gullverðlaun
1238 — Baráttan um Ísland
Leikjavæðir söguna og nýtir til þess vel nýja og fjölbreytta tækni, góð lýsing á viðfangsefninu og áhugaverð miðlun á upplýsingum. Góð framsetning og fallega uppsett.
Hönnun: Högni Valur Högnason, Júlíus Valdimarsson, Kría Benediktsdóttir, Ragnheiður Sigurðardóttir, H:N Markaðssamskipti
Hreyfigrafik

Gullverðlaun
Heilabrot — Sagafilm
List mætir tækni - undirstrikar efnið mjög vel, sem heldur manni við efnið. Milliskiltin brjóta þáttinn vel upp, hreyfimyndin truflar ekki, letrið undirstrikar orðin/hugtökin, og maður missir ekki samhengið heldur bætir við. Góð hönnun.
Hönnun: Emil Ásgrímsson, &&&.

Gullverðlaun
Megavika Domino’s
Mjög vel unnið, frábært samræmi út í gegn og í takt við vörumerkið.
Hönnun: Hrafn Gunnarsson, Gunnhildur Karlsdóttir, Eyrún Eyjólfsdóttir, Þorvaldur Sævar Gunnarsson, Jón Páll Halldórsson, Brandenburg.
Opinn stafrænn

Gullverðlaun
Snjallheimil Nova
Frumlegt og skemmtilegt, virkilega vel gert, áhugavert og setur ný og hærri viðmið. Meiriháttar flott.
Hönnun: Arnar Ólafsson, Jeremy Woons, Ueno.

Silfurverðlaun
Þitt nafn bjargar lífi — Íslandsdeild Amnesty International
Einfalt og gott, útskýrir hugmyndina vel. Virkar fullkomlega fyrir þetta viðkvæma málefni og hreyfir við manni.
Hönnun: Elsa Nielsen, Alex Jónsson, Kontor Reykjavík.
Öll úrslit FÍT verðlaunanna 2020 verða tilkynnt hér á Vísi. Í gær var tilkynnt um flokkana Mörkun og Prent. Í dag klukkan 12 verður afhjúpað hverjir hljóta verðlaun í flokknum Auglýsingar en aðalverðlaun FÍT verða tilkynnt á morgun klukkan 09.
FÍT, FÉLAG ÍSLENSKRA TEIKNARA var stofnað 23. nóvember 1953. FÍT keppnin er haldin árlega og þar er keppt um það besta í grafískri hönnun og myndlýsingum á Íslandi. Innsendingar í keppnina eru einnig opnar fyrir öðrum en FÍT meðlimum, enda er markmið keppninnar að endurspegla það besta í grafískri hönnun og myndlýsingum á Íslandi en ekki eingöngu það besta meðal félagsmanna.