Innlent

Græn svæði fegruð og tengd með grænu neti í Græna planinu

Andri Eysteinsson skrifar
Borgarstjóri kynnti græna planið klukkan 13:00.
Borgarstjóri kynnti græna planið klukkan 13:00. Skjáskot

Reykjavíkurborg hyggst taka forystu í aðgerðum til að bregðast við efnahagssamdrætti og vaxandi atvinnuleysi eftir heimsfaraldur og mun tryggja að aðgerðirnar verði í samræmi við framtíðarsýn um kolefnishlutlaust borgarsamfélag og metnaðarfull loftslagsmarkmið borgarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg þar sem greint er frá Græna planinu í efnahags- og atvinnumálum.

Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson kynnti „Græna planið“ á blaðamannafundi í ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Kom þar fram að „Græna planið“ taki til 13 þátta í borginni en á næstu vikum mun borgarstjóri efna til samráðs um alla þættina með fyrirtækjunum í borginni, aðilum vinnumarkaðarins og eiga viðræður við ríkisstjórn um græna atvinnusköpun, flýtingu stórra framkvæmda og fjárfestingar fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu.

Borgarlínan, hjólandi og gangandi vegfarendur verða settir í algjöran forgang í samgöngumálum auk þess sem að ný hverfi verði byggð og græn svæði fegruð og tengd með grænu neti.

Áhersla verður lögð á að skapa fjölda starfa við uppbyggingu, nýsköpun og skapandi verkefni.

„Reykjavík var lánsöm að pólitísk samstaða náðist um þrettán skýrar aðgerðir sem fyrstu viðbrögð við Kórónuveirunni. Starfsfólk og kjörnir fulltrúar stóðu þétt saman að neyðarstjórn og við að halda nauðsynlegri þjónustu gangandi gegnum þennan erfiða tíma í vetur. Nú er komið að næsta skrefi og það verður grænt,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×