KKÍ birti í dag fyrstu drög að leikjaniðurröðun fyrir Dominos-deildir karla og kvenna en ljóst er að það eru nokkrir mjög svo áhugaverðir leikir í fyrstu umferðunum.
Finnur Freyr Stefánsson sem tók við liði Vals í síðasta mánuði fær verðugt verkefni í fyrstu umferðinni því hann mætir þar fyrrum meðþjálfara sínum hjá íslenska landsliðinu, Arnari Guðjónssyni, og hans lærisveinum í Stjörnunni.
Darri Freyr Atlason reynir að gera KR að meisturum sjöunda tímabilið í röð en hann fær einnig stórt próf strax í fyrstu umferðinni er Njarðvík mætir í heimsókn í DHL-höllina. Drögin að Dominos-deild karla má sjá hér.
Í kvennaflokki byrja deilarmeistarar Vals á útivelli gegn Breiðabliki og í Keflavík er stórleikur þar sem KR kemur í heimsókn. Haukar fá svo tækifæri til að hefna ófaranna úr undanúrslitum Geysis-bikarsins gegn Skallagrími. Drögin að Dominos-deild kvenna má sjá hér.
Í frétt KKÍ segir að vonast eftir að dagskrá fyrstu deildanna muni liggja fyrir öðru hvoru megin við næstu helgi.