Endurkjör var eini grundvöllur flestra ákvarðana Donalds Trump Bandaríkjaforseta, jafnvel þegar þær stefndu þjóðinni í hættu eða veiktu hana, að mati Johns Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa Trump. Hann telur að demókratar hafi hlaupið á sig með því kæra Trump aðeins fyrir embættisbrot sem tengdust þvingunum forsetans gegn Úkraínu.
Í tilkynningu frá útgefanda nýrrar bókar Bolton um upplifun hans af Hvíta húsinu kemur fram að fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafinn lýsi því hvernig „óstöðug og tvístruð ákvarðanataka“ Trump hafi frekar stýrst af hvað yki möguleika hans á endurkjöri en þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
„Ég á bágt með að finna nokkra veigamikla ákvörðun Trump í minni tíð sem réðst ekki af undirhyggju um endurkjör,“ skrifar Bolton í bókinni, að sögn Simon & Schuster, útgefandans.
Bolton var þjóðaröryggisráðgjafi Trump frá apríl 2018 og fram í september í fyrra. Tvennum sögum fer af brotthvarfi hans. Sjálfur segist Bolton hafa sagt af sér en Trump fullyrðir að hann hafi rekið Bolton. Þó liggur fyrir að mönnunum tveimur greindi á um þýðingarmikil utanríkismál, þar á meðal um Norður-Kóreu og Íran.
Mistök að einblína á Úkraínu í kærunni í þinginu
Trump var kærður fyrir embættisbrot í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í vetur. Hann var talinn hafa misnotað vald sitt með því að halda eftir hundruð milljóna dollara hernaðaraðstoð við Úkraínu til þess að knýja þarlend stjórnvöld til þess að rannsaka pólitískan keppinaut hans, Joe Biden, fyrrverandi varaforseta. Biden var þá talinn líklegasti mótframbjóðandi Trump í forsetakosningum á þessu ári og hefur það gengið eftir.
Þegar öldungadeild Bandaríkjaþings fjallaði um kæru fulltrúadeildarinnar á hendur Trump lét Bolton vita af því að hann gæti búið yfir upplýsingum sem hefðu þýðingu fyrir málið. Engin vitni voru þó kölluð fyrir við réttarhöldin og Bolton þagði um það sem hann taldi skipta máli.
Washington Post segir að í bókinni saki Bolton demókrata á Bandaríkjaþingi um að hafa framið „afglöp“ þegar þeir kærðu Trump fyrir embættisbrot. Það hafi þeir gert með því að einblína aðeins á Úkraínu við rannsókn málsins.
„Brot Trump líkt og í tilfelli Úkraínu voru til staðar um allt sviðið í utanríkisstefnu hans og Bolton skrásetur nákvæmlega hver þau voru og tilraunir hans og annarra í ríkisstjórninni til þess að vekja athygli á þeim,“ segir í tilkynningu útgefandans.
Til stendur að gefa út bókina 23. júní þrátt fyrir að Hvíta húsið hafi krafist frekari breytinga á henni. Lögmaður Bolton hefur sakað Hvíta húsið um að bera fyrir sig þjóðaröryggi til þess að reyna að ritskoða fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafann.
Fréttin hefur verið uppfærð.