Alls hafa 16.476 manns greitt atkvæði utan kjörfundar vegna forsetakjörs sem fram fer 27. júní næstkomandi.
Þetta staðfestir Bergþóra Sigmundsdóttir kjörstjóri hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi í morgun. Segir hún að um klukkan 10:30 hafi 130 manns greitt atkvæði það sem af sé degi.
Ljóst er að fjöldi þeirra sem greiða atkvæði utan kjörfundar í þessu kjöri, enn sem komið er, er umtalsvert meiri en á sama tíma fyrir forsetakjörið 2016. Þá greiddu í heildina 27 þúsund manns atkvæði utan kjörfundar, sem var met, og þar af um 15 þúsund síðustu þrjá dagana fyrir kjördag.
Á höfuðborgarsvæðinu er nú hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar á þremur stöðum – á 1. og 2. hæð í Smáralind í Kópavogi og í stúku Laugardalsvallar í Reykjavík.
Tveir eru í framboði til forseta Íslands – Guðni Th. Jóhannesson forseti og Guðmundur Franklín Jónsson.