Erlent

Mögulegt að 20 milljónir Bandaríkjamanna hafi fengið veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Robert Redfield, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna.
Robert Redfield, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna. KEVIN DIETSCH/EPA

Sérfræðingar hjá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, telja að allt að 20 milljónir Bandaríkjamanna hafi sýkst af kórónuveirunni sem valdið getur Covid-19. Tæplega tvær og hálf milljón hafa greinst með veiruna í Bandaríkjunum, samkvæmt opinberum tölum, þar af hafa hátt í 125 þúsund látið lífið.

Robert Redfield, læknir og forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, sagði í samtali við fréttamenn í dag að sérfræðingar á vegum stofnunarinnar telja að allt að um tíu sinnum fleiri Bandaríkjamenn hafi smitast af veirunni en opinberar tölur gefa til kynna.

Redfield segir þetta stafa af því að aðeins hafi verið prófað fyrir veirunni hjá fólki sem sýndi einkenni. Einkennalaust fólk hafi þannig aldrei greinst með veiruna, og gæti jafnvel hafa náð sér af henni án þess að vita af því.

Sömuleiðis telur Refdfield að um fimm til átta prósent Bandaríkjamanna hafi komist í tæri við veiruna, og hvatti hann því til þess að fólk sýndi áfram fyllstu varúð. Mælti hann sérstaklega með því að fólk virti fjarlægðartakmörk og stundaði reglulegan handþvott.

Háskólinn í Washington spáir því að í október á þessu ári komi 180 þúsund manns til með að hafa látið lífið af völdum Covid-19. Samkvæmt útreikningum háskólans yrði sú tala þó mun lægri ef 95 prósent þjóðarinnar notaði andlitsgrímur í samskiptum við aðra, eða 146 þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×