Erlent

Staðfest smit á Indlandi fleiri en milljón

Sylvía Hall skrifar
Íþróttahöll í Nýju-Delí var breytt í Covid-aðhlynningarstöð. Óttast er að faraldurinn sé enn í miklum vexti í Indlandi og að heilbrigðiskerfi landsins geti ekki staðið undir því álagi sem mun fylgja.
Íþróttahöll í Nýju-Delí var breytt í Covid-aðhlynningarstöð. Óttast er að faraldurinn sé enn í miklum vexti í Indlandi og að heilbrigðiskerfi landsins geti ekki staðið undir því álagi sem mun fylgja. Vísir/Getty

Indland er nú þriðja ríki heimsins þar sem staðfest tilfelli kórónuveirunnar eru fleiri en milljón. Aðeins tvö önnur ríki eru með fleiri greind smit, Bandaríkin og Brasilía, en í Brasilíu eru tilfellin orðin fleiri en tvær milljónir.

Flest tilfellin eru enn í Bandaríkjunum þar sem rúmlega 3,5 milljónir manna hafa greinst með veiruna.

Fjöldi smita í Brasilíu og Indlandi hefur því tvöfaldast á minna en mánuði, þó svo að dánartíðni hefur haldist sú sama í Brasilíu að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins. Á Indlandi hafa 25 þúsund látist en óttast er að staðan fari versnandi eftir að veiran fór að berast í smærri þorp á landsbyggðinni.

Um 1,3 milljarður manna býr á Indlandi og er búist við að tilfellum fari fjölgandi þegar afkastageta eykst í sýnatökum. Veiran gæti þó orðið erfið viðureignar þar í ljósi þess álags sem er nú þegar á heilbrigðiskerfi landsins og telja faraldsfræðingar að enn séu nokkrir mánuðir í að faraldurinn nái hápunkti í landinu. Líklegt sé að mun fleiri séu smitaðir en fjöldi staðfestra smita gefur til kynna.

Indverski faraldsfræðingurinn Giridhar Babu segir Indverja mega búa sig undir fleiri tilfelli á næstu mánuðum, enda sé það eðlileg þróun þegar kemur að heimsfaröldrum. Markmiðið verði að vera að koma í veg fyrir frekari dauðsföll og því þurfi að útfæra vel hvernig sjúkrahúsplássum verður ráðstafað til sjúklinga sem þurfa á þeim að halda í ljósi veikleika heilbrigðiskerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×