Erlent

Yfir 600 þúsund látist í faraldrinum

Andri Eysteinsson skrifar
Covid-19 sjúklingur fluttur á milli deilda á spítala í Gvatemala.
Covid-19 sjúklingur fluttur á milli deilda á spítala í Gvatemala. Getty/Deccio Serrano

Faraldur kórónuveirunnar fer enn hörðum höndum um heimsbyggðina þrátt fyrir að í sumum ríkjum hafi góður árangur náðst með sóttvörnum. Yfir 600.000 manns hafa nú látist í faraldrinum.

Enn fjölgar tilfellum hratt og greindust 259.848 ný tilfelli kórónuveirunnar á heimsvísu í gær samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem BBC greinir frá. Aldrei hafa fleiri tilfelli greinst á einum degi.

Flest tilfelli hafa greinst í Bandaríkjunum en þar á eftir koma Brasilía og Indland þar sem tilfellum fjölgar með miklum hraða.

Samkvæmt gögnum Johns Hopkins-háskólans í Baltimore hafa nú 602.525 manns látið lífið af völdum kórónuveirunnar síðan að faraldurinn hófst.

Flest dauðsföll hafa orðið í Bandaríkjunum en þar hafa 140.120 einstaklingar látist.

Tæplega 79 þúsund hafa látist í Brasilíu og 45 þúsund í Bretlandi samkvæmt opinberum tölum. Bresk stjórnvöld hafa þó kallað eftir endurskipulagningu þar sem í ljós hefur komið að vegna mistaka er talið að allt að fjögur þúsund dauðsföll, sem ekki megi rekja til kórónuveirunnar, hafi verið talin með í opinberum gögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×