Innlent

Ferðaskrifstofur mega vinna saman til að koma fólki heim

Kjartan Kjartansson skrifar
Farbönn sem ýmis ríki hafa gripið til undanfarna daga raska ferðaáætlunum margra, bæði íslenskra og erlendra ferðamanna. Myndin er úr safni.
Farbönn sem ýmis ríki hafa gripið til undanfarna daga raska ferðaáætlunum margra, bæði íslenskra og erlendra ferðamanna. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið hefur veitt ferðaskrifstofum heimild til að vinna saman að því að tryggja að viðskiptavinir þeirra komist til síns heima og takmarka tjón sem hlýst af kórónuveiruheimsfaraldrinum. Áður hafði stofnunin leyft ferðaþjónustufyrirtækjum að hafa samstarf til að bregðast við faraldrinum.

Nokkur ríki hafa nú gripið til þess að loka landamærum sínum eða takmarka ferðalög verulega vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19-sjúkdómnum. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í gær er vísað til fordæmalauss ástands sem nú ríki.

Samstarf ferðaskrifstofanna er bundið þeim skilyrðum að Ferðamálastofa meti samstarfið nauðsynlegt hverju sinni og að stofnunin sé þátttakandi eða sé gefinn kostur á að vera þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að samstarfinu. Tilgangur þessa er sagður að tryggja að samstarf þessara keppinauta eigi sér aðeins stað að því marki sem Ferðamálastofa telur óhjákvæmilegt til að verja þá hagsmuni sem í húfi eru. Um leið sé tryggt að Ferðamálastofa öðlist yfirsýn yfir þær aðgerðir sem keppinautar á markaðnum grípa til að þessu leyti.

Samtök í ferðaþjónustu (SAF) fengu undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu til að gera ferðaþjónustunni betur kleift að grípa til aðgerða til að verja eða auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu 4. mars.

Á föstudag veitti Samkeppniseftirlitið leyfi til samstarfs keppinauta á vettvangi innflutnings og dreifingar á lyfjum sem sé nauðsynlegt til að bregðast við almannavá vegna faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×