Samhæfingarmiðstöðin í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð hefur verið virkjuð vegna fólksins sem fast er undir Langjökli.
Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri í almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu að hlutverk samhæfingarmiðstöðvarinnar sé að styðja við aðgerðarstjórn sem er á Selfossi.
Rögnvaldur segir málið alvarlegra en menn héldu í upphafi. Fyrstu björgunarsveitarmenn eru komnir að fólkinu sem hefur verið úti frá því um klukkan eitt í dag. En það var í skipulagðri vélsleðaferð um svæðið. Beiðni um aðstoð barst fyrr í kvöld þegar fólkið var að grafa sig í fönn vegna óveðursins sem nú gengur yfir. Þrjátíu og níu ferðamenn eru í hópnum og er sá yngsti 6 ára gamall. Með þeim eru tíu leiðsögumenn.
Vegna veðursins er fólkið orðið blautt og kalt og mikil hætta á ofkælingu.
Greiningarsveit send að Gullfossi og sjúkrabílar á Selfoss
Rögnvaldur segir að greiningarsveit Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sé nú á leið í þjónustuskálann við Gullfoss. Í henni eiga sæti hjúkrunarstarfsfólk og sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og starfsfólk áfallateymis Rauða krossins á Íslandi. Þar verði tekið á móti fólkinu.
Óskað hefur verið eftir því að sjúkrabílar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins verði sendir á Selfoss til þess að vera til taks því allir sjúkraflutningamenn á því svæði eru að sinna útkallinu.
Veður á svæðinu er mjög vont og á eftir að versna í nótt. Rögnvaldur segir að það sé í raun kapphlaup við tímann að koma fólkinu í skjól.