Innlent

Telja flóðið á stærð við það sem féll á Flateyri 1995

Erla Björg Gunnarsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Skýringarmynd sem sýnir hvar snjóflóðin tvö féllu.
Skýringarmynd sem sýnir hvar snjóflóðin tvö féllu. Vísir/jói k

Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur íbúa á Flateyri og Suðureyri til að halda ró sinni og ekki hika við að óska eftir hjálp ef á þurfi að halda. Samhæfingamiðstöðin í Skógarhlíð í Reykjavík var virkjuð upp úr klukkan hálf tólf eftir upplýsingar um að snjóflóð hefðu fallið á Flateyri og í Súgandafirði.

Rögnvaldur segir að fljótlega hafi verið ljóst að um stór snjóflóð væri að ræða og voru allir viðbragðsaðilar á svæðinu kallaðir út. Tíðindi bárust að einn einstaklingur hefði lent í flóðinu. Sá, ung kona á Flateyri, slasaðist ekki alvarlega. Það sé þó ekki þægilegt að lenda í snjóflóði og vera fastur í smá tíma.

Snjóflóðin virðast hafa verið stór og lýsir íbúi á Flateyri því að hún hafi talið að eiginmaður hennar hafi ekið á bílskúrshurðina. Hún hafi litið út og séð bíl sinn á hvolfi.

„Það er erfitt að átta sig á stærðinni í myrkrinu en það hljómar eins og þetta sé á pari við það sem féll árið 1995,“ segir Rögnvaldur. Tuttugu manns fórust í snjóflóðinu þann 26. október 1995 á Flateyri. Snjóflóðavarnargarðurinn, sem reistur var eftir hamfarirnar, hafi sennilega bjargað miklu í kvöld.

Á myndinni má sjá snjóflóðavarnargarðinn sem reistur var eftir flóðið 1995. Garðurinn er á að beina snjónum til hliðar við þorpið.Christian Bickel fingalo

Varðskipið Þór er á leiðinni til Flateyrar frá Ísafirði með á fjórða tug björgunarsveitarfólks auk þriggja lögreglumanna. Þá er í skipinu læknir sem mun líta á ungu konuna sem lenti í flóðinu. Reiknað er með komu skipsins til Flateyrar á milli klukkan hálf þrjú og þrjú.

Einskis er saknað á Flateyri og Suðureyri. Ljóst er að töluvert tjón er á Flateyri þar sem bátar fóru út í höfnina eftir að flóðbylgja féll á þá og sleit frá höfninni.

„Við erum ekki búnir að fá yfirlit yfir tjónið á Suðureyri,“ segir Rögnvaldur. Síðast þegar flóð varð í Súgandafirði hafi orðið tjón á bátum og vegklæðningu. Þeir hafi heyrt af brotnum rúðum og einhverjir bílar hafi farið af stað.

Viðbragðsaðilar á svæðinu fari yfir vettvang í bæjunum en þar sé fyrst og fremst hugsað um fólkið, líf og limi. Ekki sé víst að mynd fáist á tjónið fyrr en birti.

Frá höfninni í Flateyri nú undir miðnætti. Bátar hafa losnað frá bryggju.Aðsend

Þeim tilmælum er beint til íbúa á Suðureyri að halda sig frá hafnarsvæðinu og fjörunni. Enn sé snjóflóðahætta á svæðinu.

Á Flateyri er fólk hvatt til að halda sig heima.

„Það eru allar líkur á því að gilið fyrir ofan Flateyri hafi tæmt sig. Aðrar hlíðar á svæðinu eru kjaftfullar af snjó og snjóflóðahætta áfram til staðar.“

Rögnvaldur hvetur íbúa til að halda ró sinni.

„Ef fólk er í vandræðum þá ekki hika við að kalla eftir hjálp.“

Þótt lokað sé á milli sveitarfélaga þá séu viðbragðsaðilar á þessum stöðum sem geti hjálpað.

Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×