Sífellt færist í aukana að fólk starfi bæði hérlendis og erlendis eða hefur starfað erlendis um lengri eða skemmri tíma. Atvinnulíf rýnir í reynsluheim þeirra sem hafa samanburðinn á vinnustaðamenningu erlendis og hér þar sem spurt er: Hvað getum við lært af öðrum?
Jensína K. Böðvarsdóttir starfar í dag sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu Valcon Consulting. Það er með höfuðstöðvar í Danmörku, staðsetur sig sem leiðandi í ráðgjöf í Evrópu og leggur áherslu á Skandinavískar rætur sínar.
Áður var Jensína framkvæmdastjóri hjá Alvogen (e. Vice President Global Strategic Planning & HR) og vann þá með starfsfólki í 35 löndum.
Hvernig myndir þú lýsa muninum á vinnustaðamenningunni erlendis í samanburði við hér heima?
,,Það er ekkert einfalt svar við þessari spurningu því munurinn á vinnustaðamenningu er einfaldlega mismunandi á milli fyrirtækja, hvort sem þau eru í sama landi eða á milli landa.
Í starfi mínu hjá Alvogen vann ég með fólki sem var staðsett í 35 löndum og eðli málsins samkvæmt þá var fólk ólíkt á þessum stöðum.
Við náðum hins vegar að búa til sterka fyrirtækjamenningu með því að samflétta hana við stefnu og framtíðarsýn fyrirtækisins. Allt sem var gert í markaðs- og mannauðsmálum var tengt stefnunni.“

Íslensk fyrirtæki eru mörg hver að vinna í því að samhæfa betur fyrirtækjamenningu og framtíðarsýn. Getur þú gefið okkur góð ráð miðað við það sem þið gerðuð?
,,Við pössuðum vel uppá að öll skilaboð varðandi stefnuna, í hvaða formi sem þau voru, væru alltaf samhæfð, skýr og breyttust sjaldan eða lítið.
Þannig myndaðist ákveðin samhljómur á milli mismunandi hópa og landa, þvert á allt gildismat og þjóðerni starfsmanna.“
Jensína segir að til þess að byggja upp fyrirtækjamenningu í alþjóðlegu umhverfi skipti máli að starfsmenn sjái hvernig þeirra vinnuframlag skapar ávinning fyrir heildina.
,,Það er mikilvægt að í ráðningarferlinu sé verið að velja rétt fólk inn. Ekki bara útfrá menntun og reynslu, heldur líka útfrá menningu fyrirtæksins.
Hjá Alvogen vorum við með eitthvað sem við kölluðum „Alvogen DNA“, en það voru ákveðnir hæfnisþættir sem allir starfsmenn þurftu að hafa og við þjálfuðum líka í undir nafni „Alvogen Academy“.
Ánægður starfsmaður, sem nær að þróast og blómstra í starfi skapar auðvitað meira virði fyrir fyrirtækið.“
Jensína segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á fólki og finnist í rauninni allt snúast um samskipti. Hjá Valcon starfa um 300 starfsmenn í yfir 40 löndum. Þar vinna ráðgjafar mikið með breytingastjórnun og sem ráðgjafi í slíkum verkefnum, er Jensína að kynnast ólíkri fyrirtækjamenningu, hér á landi og erlendis.
Þegar Jensína er spurð um það hvað við getum helst lært af öðrum, bendir hún á það alþjóðleg fyrirtæki kalla menningar postula.
,, Mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa ákveðna ,,cultural champions“ eða menningar postula. Þessir postular hjálpa fyrirtækjum oft í að innleiða stefnu og þá menningu sem fyrirtækið vill byggja upp.
Ég tel að þetta sé eitthvað sem við gætum vel gert hér heima með því að taka þessa alþjóðlegu nálgun og heimfæra hana á okkar nærumhverfi.
Í grunninn skiptir svo öllu máli að hafa samheldna framkvæmdastjórn, skýra stefnu og sýn, forgangsröðun á verkefnum tengt stefnu og mikilvægt að mannauðsmálin tali sama tungumál.“