Jörð skalf á höfuðborgarsvæðinu klukkan 7:24 í morgun þegar jarðskjálfti af stærð 3,6 varð með skjálftamiðju um fjóra kílómetra norðvestur af Hellisheiðarvirkjun. Upptök skjálftans eru á vef Veðurstofunnar sögð hafa verið á 6,8 kílómetra dýpi.
Veðurstofunni hefur borist tugir tilkynninga um að skjálftans hafi verið vart á höfuðborgarsvæðinu.
Mikið hefur verið fjallað um skjálftavirkni á suðvesturhorninu síðustu vikur, þá sérstaklega í tengslum við landris á svæðinu vestan við fjallið Þorbjörn nærri Grindavík. Á því svæði hefur dregið út skjálftavirkni en þó mælast enn smáskjálftar á svæðinu.
Frá 21. janúar hafa yfir 1500 skjálftar mælst á svæðinu. Skjálftinn er sá stærsti á Hengilssvæðinu síðan í september á síðasta ári.
Jarðskjálfti að stærð 3,6 skók jörð við Hellisheiðarvirkjun
