Innlent

Verkfall á morgun eftir árangurslausan fund

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skilaði gögnum vegna vinnustöðvunar til Reykjavíkurborgar og Ríkissáttasemjara í lok janúar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skilaði gögnum vegna vinnustöðvunar til Reykjavíkurborgar og Ríkissáttasemjara í lok janúar. Vísir/vilhelm

Fundur samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá Ríkissáttasemjara í dag bar engan árangur. Fundurinn hófst klukkan 15 en var slitið um klukkustund síðar án niðurstöðu. Fyrirhuguð vinnustöðvun Eflingarfólks í borginni hefst því á miðnætti og stendur yfir allan morgundaginn.

Verkfall morgundagsins verður sambærilegt því sem Efling blés til á þriðjudag. Þá lagði Eflingarfólk í leikskólum, velferðarþjónustu og sorphirðu niður störf frá hádegi til miðnættis. Vinnustöðvun þess hefst hins vegar klukkan 00:01 á morgun og stendur yfir til klukkan 23:59.

Rétt eins og á þriðjudag má búast við mestri röskun á starfsemi leikskóla á morgun. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg fellur það oftast í hlut Eflingarfólks að opna og loka leikskólunum og því má gera ráð fyrir skerðingu á opnunartíma „í báða enda.“ Áhrif verkfallsins eru þó mismikil eftir leikskólum og ræðst það af hlutfalli Eflingarfólks í hverjum skóla.

Sjá einnig: Svona verða áhrifin af verkfallinu

Foreldrar leikskólabarna hafa fengið bréf frá skólastjórnendum þar sem áhrif vinnustöðvunarinnar eru útlistuð. Gróflega má ætla að áhrifin verði mest í Breiðholti en minnst í Laugardal, sem skýrist af fleiri sérfræðimenntuðum leikskólakennurum í síðarnefnda hverfinu.

Þá verður líka röskun á þjónustu velferðarsviðs borgarinnar, sem ætlað er að snerti um 1000 manns. Efling féllst þó á undanþágur til handa þeim einstaklingum sem eru í viðkvæmustu stöðunni og þurfa á mestri þjónustu að halda; eins og fólk með fatlanir, aldraðir, börn og þeir einstaklingar sem þurfa að leita í gistiskýli borgarinnar. Hins vegar mun matarþjónusta, þrif og dagdvöl skerðast.

Hjá Sorphirðunni frestast þjónusta sem og vetrarþjónusta eins og hálkuvarnir og snjóhreinsun. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er áætlað að undið verði ofan af áhrifum þeirrar vinnustöðvunar síðar í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×